
Vorið 2015 var ég au-pair í Danmörku. Ég var að passa tvo stráka sem voru eins árs og 4-5 ára. Í maí varð eldri eldri strákurinn 5 ára og við héldum afmælispartý með lego-þema. Það var föndrað, skreytt og bakað og það kemur kannski ekkert á óvart en mér þótti þessi afmælisundirbúningur alls ekki leiðinlegur.
Hann fór svo með bakstur í leikskólann til að fagna afmælinu þar. Við ákváðum að gera lego-hausa úr sykurpúðum. Þeir komu heldur betur skemmtilega út og eru mjög auðveldir í framkvæmd!

Lego-hausar – Innihald:
Sykurpúðar, venjuleg stærð.
Litlir sykurpúðar. (Til í søstrene grene)
½ Poki, gulur Candy Melts (Fæst t.d. í Allt í köku)
Ca 1 msk Kókosolía
Grillpinnar eða kökupinnar
Aðferð:
Setjið stóran sykurpúða á grillpinna og svo lítinn ofan á þann stóra. Ég geymi grillpinnana svo á froðuplastbita, en einnig er hægt að nota glös og setja sykur í glösin og stinga pinnunum svo í.
Bræðið candy melts á lágum hita í örbylgjunni. Bætið kókosolíunni út í, aðeins til að þynna. Gott að geyma sykurpúðana á pinnunum í ísskápnum á meðan þið bræðið candy melts af því það harðnar betur á sykurpúðunum ef þeir eru kaldir!
Takið einn og einn sykurpúðapinna í einu út úr ísskápnum og dýfið í sykurbráðina. Gott að hafa í háu, mjóu glasi þannig að það sé hægt að dýfa öllum sykurpúðunum ofan í, en einnig er hægt að taka skeið og moka yfir sykurpúðana.
Látið sykurbráðina leka af sykurpúðunum. Gott að “banka” pínu á pinnan og snúa pinnanum þannig að það leki fljótar af og hætti hraðar að leka. Setjið pinnan svo aftur í ísskápinn.
Þegar öllum pinnunum hefur verið dýft í candy melts þá er fínt að geyma þá í kæli í ca 5-10 mín og gera glassúr á meðan til að teikna andlitin.


Glassúr
Setjið ca 3-4 msk af flórsykri í skál og 1-2 tsk vatn.
Það er best að hafa glassúrinn vel þykkan svo að hann leki ekki af pinnunum. Setjið síðan svartan matarlit út í. Ég mæli eindregið með Wilton gel-matarlitnum sem fást einnig íAllt í köku.
Svo er bara að skella þessu í sprautuplastpoka með litlu gati/litlum stút og gera andlit! Gaman að hafa þau mismunandi. Krökkunum í leikskólanum fannst þetta æðislegt og tímdu varla að borða!


- Unnur Anna -