top of page
  • Unnur Anna

Döðlubollakökur með karamellu og ítölskum Marengs


Döðlubollakökur með ítölskum marengs eru bollakökur sem mér sjálfri datt í hug að gera. Ég tók ofboðslega góða uppskrift af döðluköku, setti í möffinsform, bjó til karamellu sem ég setti inn í, og setti síðan ítalskan marengs ofaná. Ég gerði þessar fyrst árið 2012 og þær hafa verið mínar uppáhalds síðan þá!

Böllakökur–innihald:

250 gr. döðlur 1 1/2 tsk. natron 180 gr. mjúkt smjör 100 gr. sykur 3 egg 4 1/2 dl hveiti 1 tsk vanilludropar 2 tsk lyftiduft

Aðferð:

  • Stillið ofnin á 180°C

  • Döðlurnar settar í pott, vatn þannig að fljóti yfir döðlurnar.

  • Suða látin koma upp og þá slökkt undir og látið standa í 3 mín.

  • Stappa döðlurnar aðeins í pottinum. Natron sett útí.

  • Smjör og sykur þeytt saman í aðra skál, síðan eggin sett ofan í og þeytt vel saman við.

  • Þurrefnum bætt saman við.

  • Döðlurnar í pottinum settar útí.

Möffinsið sett í form og bakað í 20 – 25 mín.

Á meðan möffinsið er í ofninum er gott að gera karamelluna.

Karamellan: 120 gr smjör 115 gr púðusykur 1/2 tsk vanilludropar 1/4 bolli rjómi

Aðferð:

  • Allt sett í pott og soðið í 7-10 mínútur. Það verður að passa karamelluna vel, að hún brenni ekki. Hún á að vera vel þykk, pínu eins og glassúr.

  • Þegar möffinsið er tekið úr ofninum þarf að kæla það vel. Óþolinmóðir geta skellt því út í garð í smástund til að kæla það hraðar, eða inn í ískáp.

  • Þegar möffinsið hefur verið kælt skal taka úr hverju möffinsi lítinn „tappa“ og setja til hliðar. Geymið tappann vel því það þarf að nota hann til að loka aftur möffinsinu. Smá brauð er tekið upp úr möffinsinu.

  • 1 – 2 tsk af karamellu er sett ofan í „holurnar“ og tappinn settur aftur á. Þannig er komin karamellufylling í möffinsið.

Þegar því er lokið er hægt að gera ítalska marengsinn

Innihald:

250 gr. sykur 50 mL vatn 4 eggjahvítur

Aðferð:

  • Sjóðið sykurinn og vatnið í 117°C (þar til hann þykknar).

  • Þeytið eggjahvíturnar.

  • Hellið sykurleginum mjög rólega í langri bunu saman við þeytinguna og hrærið svo áfram í ca. 2 mínútur.

  • Sprautið svo ítalska marengsinum á með stjörnulaga sprautu

  • Stillið á grillið í ofninum og stingið kökunum með marengsinum á inn í ofn í svona 30 sekúndur.

  • ATH! Það þarf að passa vel að horfa á kökurnar inn í ofninum og taka þær út um leið og marengsinn fer aðeins að verða gullitaður, þetta gerist mjög hratt og því þarf að passa vel að marengsinn brenni ekki!

Svo er bara að njóta!

- Unnur Anna -

bottom of page