Jólin nálgast með tilheyrandi jólastússi, hreingerningu, gjafainnkaupum og að sjálfsögðu jólabakstri. Við fjölskyldan erum dugleg að baka fyrir jólin og eru nokkrar kökur ómissandi á okkar heimili fyrir hver jól. Þá má til dæmis nefna lakkrístoppana sígildu, piparkökur, laufabrauð og englakökur. Flestir kannast við fyrstu 3 kökugerðirnar en færri kannast við englakökurnar en þær hafa verið fastur liður í jólabakstrinum hjá okkur síðan ég man eftir mér. Þetta eru æðislegar kökur, bæði góðar á bragðið og líka alveg ótrúlega fallegar litlar kexkökur með flórsykursmarens ofan á. Uppskriftin er auðveld en þetta er smá dund, að skera kökurnar út og setja marensinn á þær allar, en algjörlega þess virði að gera.
Englakökur Kexbotn – Innihald:
200g smjörlíki/smjör
125g sykur
250g hveiti
2 litlar eggjarauður
1/2 tsk hjartarsalt
Kexbotn – Aðferð:
Stillið ofninn á blástur, 180°C
Öllu blandað saman og hnoðað í hrærivél
Deigið sett á borð og vel af hveiti með og hnoðað í fallega kúlu.
Deigið er síðan sett í kæli og geymt þar í 15 mínútur
Skiptið deiginu í ca 4 hluta og fletjið deigið frekar þunnt út.
Skerið út litlar kökur á stærð við fimm krónu pening
Geymið á plötu á meðan þið gerið marensinn.
Marens – Innihald:
4 eggjahvítur
300g flórsykur
Marens – Aðferð:
Eggjahvíturnar og flórsykurinn sett í skál og þeytt þar til orðið stíft.
Sett í sprautupoka með stjörnustút og sprautað á kökurnar.
Oft skipti ég marensinum í tvennt og hef annan helminginn hvítan en lita hinn helminginn. Í þetta skiptið litaði ég annan helminginn bleikan, en ekki hvað!
Þegar búið er að sprauta á allar kexkökurnar er þetta sett í ofn stilltan á 180°C í 8-10 mínútur eða þar til kexbotninn er orðinn ljósbrúnn.
Þessar kökur geymast svo bara í dunkum eins og lakkrístopparnir!
- Unnur Anna -