Hafrakökur með hindberjasultu
Þriðji í aðventu núna og fjórði nálgast hratt. Ég elska aðventuna og jólaundirbúningin, næstum því meira en sjálf jólin. Það er bara eitthvað svo yndislega huggulegt við þetta allt saman. Reyndar hefur mér fundist þessi aðventa líða aðeins of hratt og mér finnst ég eiga eftir að gera aðeins of margt á aðeins of fáum dögum.
En í dag náði ég að baka eina sort af smákökum, eitt til að krossa af listanum og ákvað að deila með ykkur!
Þessi litlu sætu jólakökur eru ótrúlega góðar! Það sem mér finnst enn betra er að þær eru ekki jafn óhollar og þær kannski líta út fyrir að vera… og mun hollari en flestar aðrar jólasmákökur! Það er smá dund að gera þetta, eins og kannski flest annað sem ég geri, en þær eru svo krúttlegar að dundið verður algjörlega þess virði.
Hafrakökurnar – Innihald:
2 dl heilhveiti
2 1/2 dl möndlumjöl
5 dl haframjöl, kurlað í mjöl (notaði töfrasprota)
1/2 tsk salt
1 1/4 dl hlynsíróp
1 1/4 dl matarolía
Hafrakökurnar – Aðferð:
Öllum þurrefnum blandað saman í skál.
Hrærið saman hlynsírópi og matarolíunni og hellið saman við þurrefnin.
Blandið saman með sleif og hnoðið svo vel.
Deigið verður mjög þurrt til að byrja með en það þarf bara hnoða það vel.
Degið er svo geymt í ca 15 mínútur, eða á meðan þið gerið hindberjasultuna.
Hindberjasultan – Innihald:
300 g frosin hindber
50 g hrásykur
Hindberjasultan – Aðferð:
Sett í pott og soðið við vægan hita þar til það verður þykkt (ca 15-20 mín)
Mótið svo litlar kúlur úr hafradeiginu og notið svo endana á teskeið eða eitthvað svoleiðis til að móta lítil hjörtu ofan í kökurnar. Þetta tekur smá tíma en kemur ótrúlega vel út.
Síðan er hindberjasultan sett með teskeið í hjörtun sem eru í hafrakökunum, en gerið þetta varlega og setjið lítið í einu svo það fari ekki allt út um allt.
Stundum er afgangur af hindberjasultunni og þá set ég hana bara í krukku og inn í ískáp og nota þess vegna á ristað brauð.
Verði ykkur að góðu!
- Unnur Anna -