top of page
 • Unnur Anna

Snjókarlamöffins með Sírópskremi


Jólin nálgast hratt! Aðeins 7 dagar í þau. Allt á fullu, gjafaleiðangur, jólakortadund, jólaboð og svo mætti lengi telja. Það má samt ekki gleyma að baka, borða, njóta – og blogga. Þessir snjókallar glöddu marga þegar ég gerði þá.

Þeir eru ótrúlega krúttlegir og ótrúlega bragðgóðir! Þeir virðast ótrúlega erfiðir í gerð, en þeir eru það alls ekki.

það þarf bara að nenna að dunda sér aðeins

Möffins – Innihald:

225 gr smjör

2 bollar sykur

1 vanillustöng, skorin langsum og baunirnar fjarlægðar með hníf (eða 1 tsk vanillukorn sem hægt er að kaupa í dollum)

5 stór egg

Tæpir 3 bollar hveiti

Tæpur 1/3 bolli Maizenamjöl

2 teskeiðar lyftiduft

1 lítil dós sýrður rjómi

Aðferð:

 • Hitið ofninn í 180 gráður.

 • Smjör og sykur hrært saman þar til smjörið er orðið ljóst og létt.

 • Eggjum bætt út í blönduna, einu í einu og hrært vel á milli.

 • Vanillukorni bætt út í og blandað vel saman við.

 • Blandið saman í aðra skál hveiti, maizenamjöli og lyftidufti.

 • Með hrærivélina stillta á lágann snúning, blandið hveitiblöndunni rólega saman við smjörblönduna.

 • Bætið við sýrða rjómanum, hrærið aðeins, en ekki of lengi.

 • Setjið möffinsin í möffinsform, gott að nota ísskeið.

 • Bakið í um 20-25 mínútur.

 • Gott er að stinga prjóni í kökuna þegar tíminn er liðinn. Ef það festist ekkert deig á prjóninum, þá er kakan til.

 • Leyfið svo kökunum að kólna.

 • ATH! Ef þið gerið heila uppskrift af möffins þá væri fínt að gera 1 og ½ uppskrift af kreminu

Kremið – Innihald:

1 bolli síróp 4 msk sykur 2 stífþeyttar eggjahvítur

Aðferð:

 • 1 bolla af sírópi og 4 msk af sykri sett í pott og brætt.

 • Á meðan blandan bráðnar eru eggjahvíturnar stífþeyttar.

 • Sykurblöndunni er svo bættt út í eggjahvíturnar í mjórri bunu og hrært þar kremið verður þykkt

 • Svo er kreminu sprautað á möffinsið, með hringlaga, stórum stút og sprautið þrjá hringi til að gera búkinn á snjókarlinn.

Svo eru það snjókarlarnir sjálfir:

Snjókarlar – Innihald:

1pk Meðalstórir sykurpúðar (hausinn)

½ plata bráðið suðusúkkulaði (fyrir augu, munn og hendur)

Kasjú hnetur (fyrir nef. Einnig er hægt að nota gulrætur, skornar út sem nef)

Kökuskraut (fyrir hnappana á búknum)

Aðferð:

Mér finnst best að byrja að gera nefin.

 • Takið kasjúhneturnar, takið þær í tvennt eftir endilöngu og skerið hvorn part í tvennt. Þá eru komin 4 nef. Athugið að stundum eru hneturnar eiga það stundum til að brotna við þetta, en þá tók ég bara nýja.

 • Takið hníf og skerið með hnífnum djúpa holu í miðjuna á sykurpúðanum.

 • Takið því næst kasjúhnetu-nefin og stingið í holurnar þannig að þau festist.

 • Svo er gott að gera augun, munninn og hendurnar:

 • Bræðið súkkulaðið og setjið í sprautu með mjóum oddi.

 • Sprautið litlar kúlur fyrir augun

 • Og 5 kúlur fyrir neðan nefið, fyrir munninn.

 • Gerið svo tvær hendur á kremin.

Svo setjið þið hausana á kremin, og þrjú kökuskrautskúlur á kremið, og þá er snjókarlinn tilbúinn!

Einfalt, en mikið dund

- Unnur Anna -

bottom of page