Þessi skúffukaka er engri lík - hún er ótrúlega góð og fylgir skemmtileg saga með henni. Agnes frænka er systir ömmu minnar og þessi skúffukaka kemur upprunalega frá henni. Svo fékk mamma mín, sem heitir líka Agnes, uppskriftina og erum við mæðgur mjög duglegar við að baka hana. Hún hefur vakið mikla lukku og hafa margir fjölskyldumeðlimir farið með uppskrift af henni heim úr afmælum. Ættingjar okkar eru því líka að fá uppskriftina frá Agnesi frænku og hefur því nafnið á skúffukökunni haldist, Skúffukaka Agnesar frænku!
Núna heitir dóttir mín Agnes Emma, og hún verður að sjálfsögðu að læra uppskriftina, til að halda nafninu uppi!
Innihald:
250 g smjörlíki 350 g púðursykur 2 egg 350 g hveiti 2 msk kakóduft 1 tsk matarsódi 250 mL súrmjólk
Aðferð:
Hitið ofnin í 180°C. Hrærið saman mjúku smjörlíki og púðursykri þar til deigið verður ljóst og létt
Bætið einu eggi út í, hrærið í smá stund og bætið síðan næsta
Hrærið lengi þar til þetta deig verður ljóst og létt
Á meðan deigið hrærist, blandið þurrefnum saman í skál
Bætið þurrefnunum út í ásamt súrmjólkinni og blandið vel saman á lágum hraða
Setjið í litla ofnskúffu eða stórt, eldfast mót (við notum sporöskjulaga glermót keypt í Hagkaup) þannig að kakan sé pínu þykk og bakið í 35 mínútur (styttra ef þið bakið í stórri ofnskúffu)
Kremið – Innihald
1 pakki flórsykur 2 msk kakóduft 3 „sköfur“ af smjöri 1 tsk vanilludropar Rjómi
Kremið – aðferð:
Setjið pakka af flórsykri í skál ásamt kakóinu.
Bætið út í bráðnu smjöri ásamt vanilludropunum og rjóma
Blandið kreminu saman og bætið rjóma við þar til kremið er frekar þykkt, en samt mjúkt
Þegar kakan hefur staðið á bekknum í 5-10, setjið kremið á og berið fram.
ATH! Stórmerkilegt, en þessi skúffukaka er jafnvel betri eins dags gömul!
- Unnur Anna -