
Við mamma bökuðum ótrúlega góða böku í dag! Ameríska sítrónuböku! Ég er mjög mikið fyrir kökur með sítrónubragði þannig mamma benti mér á að þetta væri alveg pottþétt baka fyrir mig! Hún mamma mín þekkir mig auðvitað út og inn og því hafði hún alveg hárrétt fyrir sér – kakan var ótrúlega góð!
Við bökuðum hana saman í dag, ég elska að baka með mömmu, það er svona sameiginlegt áhugamál okkar og alltaf gaman – hún er svo yndisleg. En þessi baka er mjög góð, pínu flókin uppskrift en tekur ekkert langan tíma að gera! Uppskriftinni er skift í þrjá parta – einn fyrir botninn, einn fyrir fyllinguna og einn fyrir toppinn – marengs! Hér er uppskriftin

Botn – innihald:
1 bolli hveiti
100 g smjörlíki (kalt)
2-3 matskeiðar vatn
Botn – aðferð:
Hitið ofninn í 250°C
Blandið saman hveiti og köldu smjörlíki þangað til að í skálinni verða litlar „baunir“
Setjið vatnið út í, 1 tsk í einu, þangað til að deigið er hætt að festast við skálina (gæti þurft fleiri eða færri en 3 msk)
Spreyið eldfast mót sem þið ætlið að nota, eða smyrjið það. Hægt er að nota eitt stórt form, eða nokkur minni.
Breiðið úr deiginu í eldfast mót og bakið í 8 – 10 mínútur eða þangað til botninn verður gulbrúnn
Kælið botninn á meðan þið gerið fyllinguna


Fylling – innihald:
4 eggjarauður
1 1/2 bolli sykur
1/3 bolli maízenamjöl
1 1/2 bolli vatn
55 g smjör
2 tsk fínlega rifinn sítrónubörkur ( ca. 2 sítrónur)
1/2 bolli sítrónusafi

Fylling – aðferð:
Hitið ofninn í 200°C
Í lítilli skál, pískið eggjarauðurnar með gaffli, geymið þær svo aðeins.
Blandið saman í potti, sykrinum og maízenamjölinu.
Bætið vatninu út í.
Látið sjóða og haldið suðu í 1 mínútu, hrærið í þessu allan tíman.
Fjarlægið pottinn af hitanum.
Setjið strax ca. 1/4 af heitri blöndunni ofan í skálina með eggjarauðunum, í mjórri bunu,og hrærið í þeim á meðan.
Setjið svo blönduna aftur út í pottinn. (Þannig aðlagast eggjarauðurnar hitanum og hlaupa ekki í hitanum)
Sjóðið og haldið suðu í 2 mínútur. (hrærið í allan tíman) Passið ykkur samt – þetta er mjög heit og þykk blanda og á það til að skvettast á mann..
Fjarlægið pottinn af hitanum.
Bætið smjörinu, fínlega rifnum sítrónuberkinum og -safanum.
Hrærið þangað til að smjörið er bráðnan og allt hefur blandast vel saman.
Hellið heitri fyllingunni á botninn.



Innihald – marengs:
3 eggjahvítur
1/4 tsp Cream of Tartar
6 msk sykur
1/2 tsk vanilludropar
Marengs – aðferð:
Hrærið eggjahvíturnar og cream of tartar með hrærivél í mjög hreinni skál á háum hraða þangað til blandan verður froðukennd.
Bætið sykrinum út í, 1 matskeið í einu.
Bætið vanilludropum útí og hrærið þar til marengsinn verður stífur og glansandi
Setjið marengsinn út á bökuna, varlega! Það er líka hægt að sprauta honum á – eins og við mamma gerðum í þetta skiptið
Bakið á 200°C í 8 – 10 mínútur eða þar til marengsinn er orðinn ljósbrúnn!
Takið kökuna þá út og leyfið henni að standa á borði og kólna í 2 klst áður en hún er borin fram




Verði ykkur að góðu!
- Unnur Anna -