top of page
  • Unnur Anna

Einföld Eplakaka Örnu frænku

Fjölskyldan mín er mjög náin. Við erum öll svo góðir vinir og alltaf góð við hvort annað. Við eigum það sameiginlegt að ver öll mjög upptekin – í dansi, ljósmyndaklúbbi, fótbolta, skólanum og í fleiru. Þess vegna eru sumir dagar þannig að við erum öll upptekin á sitthvorum tímanum og hittumst þá lítið sem ekkert.Þessa helgi var ég í Reykjavík í menningarferð með skólanum, mamma fór í ljósmyndaleiðangra, systir mín mikið að læra og allir bara mjög uppteknir. Ég kom svo heim í kvöld og þá voru loksins allir heima saman. Við elduðum því góðan mat og höfðum það kósí. Eftir matinn ákváðum við systur að baka eplaköku. Við systur erum kannski ólíkar í útliti, en við erum eins og ein sál – og hún er alveg lang besta vinkona mín. Ég elska að vera með henni – og að baka með henni er algjör snilld! Við skemmtum okkur konunglega og mömmu fannst sko ekkert leiðinlegt að mynda okkur. Uppskriftina fékk ég frá Örnu systur mömmu, og er uppskriftin afar einföld og ofboðslega góð!

Eplakaka – Innihald:

3 – 4 epli

Slatti af kanelsykri

200 g hveiti

200 g sykur

200 g smjörlíki

Eplakaka – Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 240 °C

  2. Skerið 3-4 epli í bita og setjið á botnin á forminu sem þið ætlið að nota

  3. Stráið slatta af kanelsykri yfir eplin

  4. Setjið hveiti og sykur í skál og blandið aðeins.

  5. Bætið linu smjörlíki út í og hnoðið aðeins með höndunum

  6. Hnoðið deigið í kúlu og setjið í kæli í 5-10 mín

  7. Takið deigið úr kæli og skerið í þunnar sneiðar og dreifið yfir eplin þannig að það sjáist ekki lengur í þau.

  8. Bakið í 20 – 25 mín eða þar til deigið hefur brúnast aðeins og verður pínu stökkt ofan á – en alls ekki of stökkt!

  9. Best að bera fram með vanillu ís!

Sáraeinfalt en þori að fullyrða að þetta er besta eplakakan!

- Unnur Anna -

bottom of page