Við höfum flest öll lent í því að baka, að við teljum, alveg eftir uppskrift, en kakan bara heppnast alls ekki vel. Stundum brennur hún, er of þykk, of þunn of þetta of hitt.
Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að kaka misheppnast, sem gott er að hafa í huga til að ná fullkomri köku í hvert sinn.
★★★
Ef botninn brennur
Ef botninn brennur þá er oft ástæðan að formið er of stórt, jafnvel of djúpt. Þá nær kakan að bakast á botninum áður en að efri hlutinn bakast.
Einnig gæti kakan verið of neðarlega í ofninum. Best er að hafa kökuna í miðjum ofni.
Formið er of dökkt. Of dökk form draga í sig meiri hita. Gott er að smyrja dökk form mjög vel eða jafnvel setja bökunarpappír í botninn og á hliðarnar.
★★★
Ef kakan rís ekki
Ef kakan rís ekki þá gæti verið að það hafi verið sett of lítið af lyftidufti eða matarsóda í deigið.
Of hátt hitastig á ofninum. Ef kaka er bökuð á of háu hitastigi nær hún stundum að bakast yfir og undir áður en miðjan bakast alveg og áður en kakan nær að lyfta sér.
Ofhrært deig. Það þarf að passa mjög vel að hræra deig ekki mikið eftir að lyftiduft/matarsódi hefur verið sett út í. Oft er gott að blanda eftir það bara með sleif, sérstaklega ef deigið er viðkvæmt.
Of mikið deig í stóru formi. Ef verið er að baka mjög stóra köku, þá mæli ég með að kaupa lítið álform og setja smá deig ofaní það, og setja það í miðjuna á forminu og þá bakast kakan jafnt.
★★★
Ef það eru miklar sprungur í kökunni
Ef að miklar sprungur eru í kökunni þá er skýringin oftast að það hafi verið sett aðeins of mikið hveiti í deigið.
Einnig getur verið að kakan hafi verið bökuð á of háu hitastigi.
★★★
Ef kakan fellur
Ef kakan fellur gæti verið að að kakan hafi verið tekin út of snemma.
Einnig gæti verið að það hafi verið sett of mikið af lyftidufti eða matarsóda. Þá lyftir kakan sér mjög hátt og fellur svo.
Ekki nógu mikið hveiti.
Kakan hrærð of lengi eftir að matarsódi/lyftiduft var sett út í.
Ofnin oft opnaður á meðan kakan bakaðist. Freistandi, en betra að standast þessa freistingu og opna ofnin ekkert fyrr en tíminn er búinn. (nema í þau skipti sem þarf að snúa plötunni í ofninum)
Ofninn of lágt stilltur.
★★★
Ef gerbrauðið (bollurnar, snúðarnir, etc) er seigt
Ef bollurnar eru seigar er oft of mikið hveiti.
Einnig getur verið að deigið sé of mikið hnoðað
Ég vona að þetta hafi hjálpað eitthvað!
- Unnur Anna -