top of page
Unnur Anna

Sykursætir sykurpúðar


Um daginn bakaði ég sykurpúða með yndislega 4 ára bróðursyni mínum. Hann var mjög spenntur yfir því að baka sykurpúða, honum finnst þeir nefnilega mjög góðir. Hann fylgdist því mjög vel með öllu sem ég gerði. Hann hjálpaði mér líka eins og hann gat og sagði svo reglulega: „Nú get ég farið heim og kennt mömmu þetta! :)“ Uppskriftin hljómar smá flókin en er ekkert mál þegar maður er kominn í þetta.

Sykurpúðar – Innihald:

3 stk eggjahvítur

200 mL vatn

455 g sykur

1 msk glúkósi (Fæst í Hagkaup)

9 stk matarlímsblöð (Fæst einnig í Hagkaup)

1 tsk vanilludropar

Matarlitur (ekki nauðsynlegt)

3/4 bolli flórsykur

1/4 bolli maizenamjöl

Aðferð:

  • Stífþeytið eggjahvíturnar

  • Á meðan þær stífna, Hitið sykur, glúkósa og vatn að 117°

  • Á meðan sykurblandan hitnar, setjið matarlímblöðin í glas (beyglið þau þannig þau komist fyrir í glasinu) og setjið vatn í glasið þannig að það nái uppfyrir matarlímið og látið bíða í smá stund

  • Þegar sykurblandan er tilbúin, takið pottinn af hellunni

  • Takið matarlímið úr glasinu og setjið það í pottinn og hrærið þar til límið er leyst upp og hefur blandast vel við blönduna.

  • Setjið sykurblönduna í hitaþolið ílát, til dæmis könnu.

  • Hafið hrærivélina í gangi, á miðlungs hraða og hellið sykurblöndunni út í, hægt og rólega, í langri bunu.

  • Þegar öll blandan er komin út í, bætið vanilludropunum út í. Ef þið ætlið að lita sykurpúðana, þá er það gert á sama tíma og vaniludropunum er bætt út í.

  • Hrærið í 5-10 mínútur. Á þeim tíma þykknar blandan og er tilbúin þegar sykurpúðarnir halda lögun sinni á þeytaranum.

  • Á meðan sykurpúðarnir þykkna, blandið saman í skál flórsykrinum og maízenamjölinu. Þegar hingað er komið er um tvennt að velja:

  1. Að setja alla sykurpúðana í stórt fat og skera þá svo út:

  • Þá skal spreyja/smyrja formið vel og strá svo vel af flórsykursblöndunni á allar hliðar formsins.

  • Næst skal hella allri sykurpúðablöndunni í formið og nota sleif til að slétta úr.

  • Stráið vel af flórsykursblöndunni yfir sykurpúðablönduna

  • Látið sykurpúðana bíða í ca 2 klst (Reynir mjög á þolinmæðina) áður en þið takið sykurpúðana úr forminu og skerið út!

  1. Að sprauta sykurpúðunum á plötur (ég gerði það í þetta skiptið)

  • Þá skal spreyja/smyrja plöturnar vel og strá svo vel af flórsykursblöndunni á plöturnar

  • Næst skal setja ca 1/2 af sykurpúðablöndunni í sprautuform og sprauta á plöturnar.

  • Stráið vel af flórsykursblöndunni yfir sykurpúðana.

  • Látið sykurpúðana bíða í ca. 2 klst áður en þeir eru bornir fram

Vel biðarinnar virði!!

-Unnur Anna-

bottom of page