Whoopie Pies
Whoopie pies eru kökur sem ekki margir hafa heyrt um. Whoopie pies eru einskonar samlokur, gerðar úr tveimur mjúkum smákökum með gómsætum kremfyllingum inní. Konur úr Amish samfélögum í gamla daga bökuðu þessar kökur úr afgangs deigi sem þær áttu og gáfu börnum sínum og mökum sem hádegis-nesti. Þegar krakkarnir og mennirnir opnuðu svo nestisboxin sín hrópuðu þau af ánægju: “Whoopie!” og þaðan er nafnið af whoopie bökunum komið!
Það tekur alls ekki langan tíma að baka þessar kökur og hægt er að leika sér þvílíkt mikið með hugmyndaflugið við að gera þær. Ég fékk bók um þessar kökur í gjöf frá systrum mömmu og þar má finna yfir 80 mismunandi útgáfur af þessum kökum! Ótrúlega skemmtileg bók og girnilegar uppskriftir.
Þessi uppskrift sem ég gerði núna er bara svona “basic” uppskriftin. Ég setti svo bara bleikan matarlit út í degið og kremið og skreytti aðeins.
kökurnar–Innihald:
225 g hveiti 1 ½ tsk lyftiduft 115 g smjörlíki 250 g sykur 2 egg 2 tsk vanilludropar 125 g sýrður rjómi Matarlitur (val)
Kökurnar – Aðferð:
Stillið ofninn á 180°C.Setjið hveiti og lyftiduft saman í skál og blandið saman með skeið.
Þeytið saman egg og sykur í hrærivél.
Bætið einu eggi í einu útí og hrærið vel á milli.
Bætið vanilludropunum útí og hrærið vel.
Setjið hveitiblönduna saman við ásamt sýrða rjómanum og blandið saman.
Ef þið ætlið að setja matarlit útí, þá gerið það hér og blandið saman.
Setjið deigið í sprautupoka (fást í Ikea) og sprautið þannig að þvermálið sé 3 cm á hringjunum. (gott að teikna hringi á smjörpappír) (Ég á mottu þar sem öðrum megin er hægt að setja makkarónur á og hinum megin eru aðeins stærri hringir og þar fara whoopie pies. Ef þið notið svoleiðis mottu passið að fylla ekki alveg út í hringina heldur hafa degið bara 3 cm í þvermál. Það lekur út og stoppar á ytri hringjunum.
Bakið í 7-10 mínútur, stingið þá prjóni í kökurnar og ef ekkert deig festist á prjóninum þá eru kökurnar til!
Leyfið þeim að kólna áður en þið setjið kremið á.
Kremið – Innihald:
4 eggjahvítur 200 g sykur 1 tsk vanilludropar 225 g smjör við stofuhita
Kremið – Aðferð:
Setjið sykur og eggjahvítur í skál sem þolir hita
Setjið skálina yfir pott með vatni í og hitið vatnið. Hrærið stanslaust í sykurblöndunni þar til sykurinn hefur verið leystur upp.
Setjið þá sykurblönduna í hrærivél og stífþeytið blönduna.
Bætið vanilludropum útí og hrærið.
Setjið smjörið í, einn bita í einu og hrærið vel. Kremið á það til að skilja sig en ekki örvænta – hrærið bara áfram og það verður allt í lagi.
Setjið matarlit út í ef þið viljið og hrærið vel.
Smyrjið kreminu á með hníf og lokið „samlokunni“
Svo er hægt að skreyta kökurnar með einhverskonar kurli eins og sést hér fyrir neðan.
... og svo er bara að njóta!
- Unnur Anna -